Skipulagsbreytingar hjá IER
31. mars 2025
Borgarráð samþykkti á fundi sínum þann 6. mars sl. skipulagsbreytingar hjá Innri endurskoðun og ráðgjöf. Tvö af þremur fagsviðum einingarinnar eru lögð niður, fagsvið persónuverndar og fagsvið ráðgjafar, og þau verkefni færast annað.
Árið 2020 sameinuðust umboðsmaður borgarbúa og persónuverndarfulltrúi Reykjavíkurborgar Innri endurskoðun og með því átti að verða öflug eftirlitseining innan borgarkerfisins. Á árinu 2024 fór fram greining af hálfu KPMG til þess að rýna hvernig til hefði tekist með sameininguna og niðurstaðan var sú að þessum verkefnum væri betur fyrir komið annars staðar í borgarkerfinu.
Þau verkefni sem áður tilheyrðu fagsviði ráðgjafar færast nú til þjónustuvers Reykjavíkurborgar eða beint til viðkomandi sviðs eftir eðli máls.
Persónuverndarfulltrúi Reykjavíkurborgar mun færast til skrifstofu borgarstjóra og borgarritara samkvæmt skipuriti og mun halda áfram að sinna þeim málefnum þaðan.
Þessar breytingar munu taka gildi frá og með morgundeginum, 1. apríl 2025.