Ágrip af sögu endurskoðunar hjá Reykjavíkurborg
1872 – Gefin út tilskipun um sveitarstjórn á Íslandi og þar gefin fyrirmæli um reikningshald og reikningsskil hreppsnefndarinnar. Í 20 gr. nefndrar tilskipunar, er kveðið á um að hreppsnefndin öll skuli rannsaka reikninginn, eða kjósa mann til að endurskoða hann. Sama ár er gefin út samþykkt um bæjarmálefni Reykjavíkur og þar einnig ákveðið um endurskoðun bæjarreikninganna.
Bæjarstjórn Reykjavíkur, síðar borgarstjórn, kýs sér skoðunarmenn til að endurskoða reikninga borgarinnar með þessum hætti í samræmi við sveitarstjórnarlög frá árinu 1872 til ársins 2012 þegar ný sveitarstjórnarlög taka gildi og hlutverk skoðunarmanna er alfarið fært til löggiltra endurskoðenda sbr. 72. gr. þeirra laga.
1942 – Stofnuð staða aðalendurskoðanda Reykjavíkurborgar og er Guttormur Erlendsson ráðinn til starfans. Endurskoðun á ársreikningum Reykjavíkurborgar var hendi embættisins fram til ársins 2004 þegar ytri endurskoðunin var boðin út eða í 62 ár. Um 1960 er embættisheiti aðalendurskoðanda breytt í borgarendurskoðanda.
1966 – Helgi V. Jónsson tekur við af Guttormi Erlendssyni sem borgarendurskoðandi.
1969 – Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir reglur um Endurskoðunardeild Reykjavíkurborgar hinn 20. mars 1969. Meðal ákvæða þeirra er það skilyrði að borgarendurskoðandi sé löggiltur endurskoðandi, kjörinn af borgarstjórn og heyri beint undir hana. Við gildistöku reglnanna er tekið upp það fyrirkomulag að skoðunarmenn og borgarendurskoðandi mynda stjórn Endurskoðunardeildar og er borgarendurskoðandi formaður. Reglurnar fela í sér að samvinna verður um endurskoðunarstörfin milli endurskoðunardeildar Reykjavíkurborgar og hinna kjörnu endurskoðenda.
1975 –Helgi V. Jónsson lætur af embætti borgarendurskoðanda og Bergur Tómasson tekur við
1980 – Starfsmenn endurskoðunardeildar eru þrettán að tölu, þar af tveir í hálfu starfi. Í nóvembermánuði 1979 er skýrsla stjórnar endurskoðunardeildar fyrir árið 1978 tekin fyrir í borgarráði og afgreidd þar 13. nóvember. Er þetta í fyrsta sinn sem slíkt er gert.
1983 – Nýjar reglur fyrir Endurskoðunardeild Reykjavíkurborgar eru lagðar fram í borgarráði og samþykktar þann 22. febrúar. Starfsmenn endurskoðunardeildar eru fimmtán auk borgarendurskoðanda, þarf af sex í hlutastarfi. Með ársreikningi 1984 kemur í fyrsta sinn skýrsla stjórnar Endurskoðunardeildar um frávik frá fjárhagsáætlun.
1987 - Innri endurskoðunardeild er komið á fót hjá Reykjavíkurborg árið 1987 og er Birgir Finnbogason ráðinn forstöðumaður. Hlutverk deildarinnar lýtur að reikningslegu eftirliti með tekjum, gjöldum og eignum borgarinnar og er unnið reglubundið að eftirlitinu allt árið. Deildin er hluti af skipulagi borgarinnar, starfar samhliða Endurskoðunardeild en heyrir undir stjórn fjármála og reikningsskila borgarinnar.
1994 – Símon Hallsson tekur við starfi borgarendurskoðanda af Bergi Tómassyni. Skoðunarmenn og borgarendurskoðandi leggja fram tillögu til breytinga sem lýtur að því að þeim verði tryggt eigið starfslið og starfsemin fái formlega heitið Borgarendurskoðun, en það heiti hafði verið notað til skilgreiningar á starfi borgarendurskoðanda og skoðunarmanna. Tillagan er samþykkt í borgarráði 17. maí 1994 og tekur gildi 1. júlí. Skipurit það sem borgarstjórn samþykkir fyrir Borgarendurskoðun gerir ráð fyrir þrískiptingu verkþátta, þar á meðal er stjórnsýsluendurskoðun. Innri endurskoðunardeild er lögð niður og færast flest störf hennar til Borgarbókhalds.
2003 – Borgarendurskoðun er lögð niður frá og með 28. febrúar árið 2003 að tillögu borgarstjóra og forseta borgarstjórnar.
Innri endurskoðunardeild sem í skipuriti heyrir beint undir borgarstjóra er komið á fót og er Ágúst Hrafnkelsson ráðinn forstöðumaður deildarinnar. Hlutverk deildarinnar er að sinna innri endurskoðun hjá A hluta Reykjavíkurborgar í umboði borgarráðs. Endurskoðun ársreiknings samstæðu Reykjavíkurborgar er boðin út og hefur síðan verið framkvæmd af endurskoðunarfyrirtækjunum Grant Thornton, PricewaterhouseCoopers og KPMG og nú síðast aftur af Grant Thornton.
2006 – Hallur Símonarson tekur við starfi forstöðumanns innri endurskoðunardeildar af Ágústi Hrafnkelssyni.
2007 – Gerð er breyting á starfsreglum innri endurskoðunardeildar sem fær heitið Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar og er embættisheiti forstöðumanns breytt í innri endurskoðanda Reykjavíkurborgar. Veigamesta breytingin er sú að Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar er falin ábyrgð á innri endurskoðun innan samstæðu Reykjavíkurborgar. Stjórnskipulegri stöðu innri endurskoðanda er einnig breytt þannig að hann heyrir beint undir borgarráð til að tryggja hlutleysi og óhæði gagnvart borgarstjóra og öðru starfsliði borgarinnar.
2008 – Gert er samkomulag við stjórnir Félagsbústaða hf. og Malbikunarstöðvarinnar Höfða hf. um að Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar sinni innri endurskoðun félaganna.
2012 – Endurskoðunarnefnd borgarstjórnar komið á fót. Nefndin hefur eftirlit með vinnuferli við gerð reikningsskila og endurskoðun ársreikninga auk eftirlits með fyrirkomulagi og virkni innra eftirlits, innri endurskoðun og áhættustýringu.
2015 – Stjórn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs. og Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar ganga frá samkomulagi um innri endurskoðun félagsins.
2015 – Stjórn Strætó bs. gengur frá samningi við Deloitte um innri endurskoðun. Stjórn Sorpu bs. gengur frá samningi við PwC um innri endurskoðun.
2017 – Hafnarstjórn Faxaflóahafna sf. samþykkir að semja við Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar um innri endurskoðun.
2018 – Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur sef. og Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar gera samkomulag um innri endurskoðun félagsins og jafnframt Gagnaveitu Reykjavíkur hf., Veitna ohf. og Orku náttúrunnar ohf. sem eru dótturfélög Orkuveitu Reykjavíkur.
2020 – Borgarráð samþykkir undir lok febrúar að sameina eftirlitseiningar Reykjavíkurborgar með það að markmiði að einfalda og um leið styrkja starfsemi og skipulag þeirra aðila sem sinna eftirliti með rekstri og stjórnsýslu Reykjavíkurborgar. Í samþykktinni felst m.a. að sameina eigi starfsemi innri endurskoðunar, umboðsmanns borgarbúa og starf persónuverndarfulltrúa, undir stjórn og ábyrgð innri endurskoðanda Reykjavíkurborgar. Sameining eininganna tekur gildi 1. júlí 2020.